"Já, ég sagði það sama um Singer og Friedlander á sínum tíma en þessir hlutir breytast mjög hratt. Í dag höfum við þó engin áform um að yfirtaka Storebrand," segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka, en bankinn jók á miðvikudaginn hlut sinn í norska bankanum úr 4,9 prósentum í 7,8 prósent.

Kaupþing keypti rúmlega sjö milljónir bréfa á genginu 71 norsk króna og samkvæmt því má því gera ráð fyrir að heildarvirði hlutafjár sé rúmlega 180 milljarðar íslenskra króna.

"Við höfum fylgst grannt með Storebrand í langan tíma. Þetta er spennandi banki eins og margir aðrir í Skandinavíu. Norræn fjármálafyrirtæki eru að okkar mati á hagstæðu verði í dag og er Storebrand á meðal þeirra."

Ekki eru þó allir á einu máli um það. Hreiðar segir marga erlenda fjárfesta gera ráð fyrir að hagnaður norrænu fjármálafyrirtækjanna sé í hámarki í ár og því séu þeir ekki æskilegur fjárfestingakostur.

"Við erum einfaldlega ekki sammála þeim greiningum. Við teljum útlitið fyrir árin 2007 og 2008 vera mjög gott í þessum geira og þar af leiðandi sé um gott fjárfestingatækifæri að ræða."

Gengi hlutabréfa í Storebrand hækkaði um 4,4 prósent, í 74,2 norskar krónur og segir Nils Christion Oyen, greiningaraðili First Securities fjárfestingabankans, hækkunina vera til komna vegna orðróms um mögulega yfirtöku Kaupþings á Storebrand.

Oyen mælir þó með undirvogun í bankanum, þar sem hann spáir því að gengið muni lækka um tíu norskar krónur ef ekki verður af yfirtökuboðinu. Og nú er bara að sjá hvort Storebrand fari sömu leið og Singer og Friedlander.