Ekki hefur verið rætt um það í stjórn Skipta, móðurfélagi Símans og tengdra félaga, að gera breytingu á stöðu forstjóra eða annarra stjórnenda fyrirtækisins í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins, sem lauk í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Skipa sem send var fjölmiðlum fyrr í dag.

Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku kom fram að óvíst væri með stöðu Steins Loga Björnssonar, forstjóra Skipta. Í umfjöllun blaðsins kom m.a. fram að rætt hafi verið um það að hvort rétt þyki að skipta um forstjóra í félaginu að lokinni endurskipulagningu. Eft­ir því sem Viðskiptablaðið komst næst hafði málið þó ekki ver­ið rætt á stjórnarfundi í Skiptum þó svo að það hafi verið rætt með óformlegum hætti utan stjórnar.

Þá kom fram að Helgi Magnússon, varaformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem sæti á í stjórn Skipta, hafi viðrað þá hugmynd við aðra að skipta um forstjóra féalgsins. Helgi vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað en sagði þá í samtali við Viðskiptablaðið að það væri hlutverk stjórnar félagsins að ákveða hver forstjóri þess væri og að ný stjórn yrði að öllum líkindum kjörin þeg­ar fjárhagslegri endurskipulagn­ingu væri lokið.