Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á Alþingi í gær að engin ákvörðun hefði verið tekin um álagningu útgönguskatts til þess að losa um fjármagnshöftin. Þaðan af síður hefði hann boðað einhverja tiltekna prósentu sem menn væru farnir að vísa til.

Greint er frá því í Fréttablaðinu að menn innan fjármálageirans undrist hvað tefji ákvarðanir um losun hafta þar sem skilyrði séu góð.

Kveðst blaðið hins vegar hafa heimildir fyrir því að vandamálið liggi fyrst og fremst í því að erfitt sé að setja skatt sem aðeins taki til fjármagns úr þrotabúunum. Slíkur skattur yrði að ná yfir allt útstreymi fjármagns, sem mundi svo hafa áhrif á fjárfestingar aðila eins og lífeyrissjóða eða jafnvel erlendar skuldir fyrirtækja.