HB Grandi ætlar að draga verulega úr eða jafnvel hætta að kaupa botnfisk á fiskmarkaði. Ástæðan er sú að rekstrarhorfur fyrir botnfiskvinnslu hafa ekki verið lakari í áratugi að því er fram kom í tilkynningu frá fyrirtækinu í morgun.

„Það liggur fyrir að við höfum ákveðið að draga úr eða jafnvel hætta alveg kaupum af öðrum útgerðum á fiskmörkuðum. Við keyptum í fyrra 4.000 tonn með þeim hætti af þeum 28.000 tonnum sem við unnum í landi þá,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda í samtali við RÚV . . Hann segir að nauðsynlegt hafi verið að taka þessa ákvörðun.

„Hún er einfaldlega til að draga úr því tapi sem er fyrirsjáanlegt á vinnslu botnfisks í landi. Sá taprekstur helgast fyrst og fremst af sterku gengi íslensku krónunnar og kostnaðarhækkunum innanlands. En fiskverð hefur hins vegar lítið breyst síðustu tvö árin hjá okkur.“

Botnfiskvinnslan fer bæði fram í Reykjavík og á Akranesi. Á Akranesi vinna um 160 manns hjá fyrirtækinu. Vilhjálmur var spurður hvaða áhrif þetta  myndi hafa á starfsemi fyrirtækisins uppi á Skaga?

„Þetta eitt og sér hefur ekki áhrif á starfsemi okkar á Akranesi. Við höfum fyrst og fremst verið að vinna þorsk á Akranesi. Við keyptum um 500 tonn af þorski á markaði í fyrra. Þetta er fyrst og fremst ufsi sem við höfum verið að kaupa og hann hefur farið til vinnslu í Reykjavík.“

Munið þið þá ekkert draga úr ykkar starfsemi á Akranesi?

„Það er bara önnur ákvörðun og það hefur engin ákvörðun verið tekin um það.“

Forsvarsmenn HB Granda eiga fund með Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness, uppi á Skaga  í dag til að fara yfir þá stöðu sem blasir við í landvinnslunni.