Engin niðurstaða hefur enn fengist í aðkomu lífeyrissjóðanna að verkefnum í vegagerð hér á landi. Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri segir allt óbreytt varðandi frestun útboða. "Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um annað."

Fjölmörg verkefni eru því í fullkominni óvissu vegna frestunar útboða. Má þar nefna útboð vegna seinni áfanga Suðurstrandarvegar sem átti að fara fram í haust. Einnig tvöföldun Suðurlandsvegar, gerð nýs Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Fífuhvammsvegar og tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi. Þá eru ótalin fjölmörg önnur verkefni eins og ný göng undir Hvalfjörð, Vaðlaheiðargöng, Dýrafjarðargöng og fleira.