„Ég sá ekki ástæðu til að hækka vexti,“ segir Friðrik Már Baldursson, prófessor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, aðspurður um stýrivaxtahækkun Seðlabankans í síðustu viku. Þá hækkaði bankinn vextina um 0,5 prósent í 15,5%.

Friðrik Már efast um að hækkunin muni breyta miklu til eða frá. Hann bendir á Peningamál Seðlabankans, máli sínu til stuðnings. Þar komi skýrt fram að gjaldeyrismarkaðurinn hefði ekki virkað sem skyldi. Vaxtamunur í gjaldmiðlaskiptasamningum hefði nánast horfið og krónan lækkað ört í kjölfarið.

„Þessi vaxtahækkun breytir sáralitlu um þá stöðu.“ Friðrik Már kveðst heldur ekki sjá hvernig hækkunin eigi að slá enn frekar á innlenda eftirspurn. Nú þegar séu vísbendingar um að draga muni úr eftirspurn, til dæmis á fasteignamarkaði. „Það má því segja að þessir háu stýrivextir séu farnir að virka af fullum þunga nú þegar. Fyrir tiltölulega skömmu gat fólk farið fram hjá krónunni og háu vöxtunum með því að taka lán í erlendri mynt. Nú eru þeir möguleikar takmarkaðir. Þar af leiðandi bíta þessir vextir meira.“

Nær hefði verið, segir hann, að bíða og sjá hvort vaxtahækkanir fram til síðustu hækkunar dygðu ekki. Síðasta vaxtahækkun gæti því í raun minnkað tiltrú á efnahagslífið og sýnt hálfgerða örvæntingu hjá Seðlabankanum.