Árni Mathiesen fjármálaráðherra sagði í samtali við Viðskiptablaðið í dag að hann hafi aldrei vitað til þess að íslenskir athafnamenn hafi tengst viðskiptum sem rekja má til peningaþvættis og að aldrei hafi verið ástæða til að rannsaka hvort að illa fengið fé hafi ratað hingað til lands frá Rússlandi.

Danska götublaðið Ekstra Bladet mun birta neikvæða umjöllun um íslensku útrásina á sunnudaginn næstkomandi og segir Lars Christensen, einn höfunda dökku skýrslu Danske Bank, að orðrómur um fréttina hafi stuðlað að veikingu krónunnar í dag. Íslenska krónan veiktist verulega í dag, eða um rúmlega 2%

Ekstra Bladet spyr: Hefur þú verslað við Sterling, Merlin eða Magasin? Og viltu vita hvaðan peningarnir koma? Greinin mun fjalla um hvernig peningaþvætti og illa fengið fé frá Rússlandi hafi fjármagnað útrás íslenskra fjárfesta, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Christensen segir í tölvupósti, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, að fréttin geti leitt til þess að fjárfestar losi stöður í krónunni, sem mun hafa ruðningsáhrif á aðra hávaxtagjaldmiðla.

"Í síðustu viku þegar ég heimsótti Ísland gerði Roman Abramovich það líka. Hann hitti forseta Íslands ... en það er auðvitað 'eðlilegt' ... eða hvað? Engar vangaveltur hér -- aðeins athugun. Svo varið ykkur þarna úti ...," segir Christensen í töluvpóstinum.