Sendiráð Rússlands á Íslandi getur ekki svarað því, hvers vegna Ísland er ekki á lista yfir þjóðirnar sem bannað hefur verið flytja matvæli til Rússlands.

Í samtali við RÚV staðfesti Alexey Shadskiy, sendiráðunautur í rússneska sendiráðinu, að Ísland væri ekki á listanum. Aðspurður um hvers vegna svo væri sagðist hann ekki geta svarað því öðruvísi en að það hafi verið ákvörðun ríkisstjórnarinnar í Rússlandi að hafa ekki Ísland á listanum. Hann gat ekki svarað því hvort væri líklegt að Ísland færi á listann.

Eins og VB.is greindi frá hafa rússnesk stjórnvöld bannað mest allan innflutning á matvælum frá mörgum ríkjum meðal annars Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og Noregi. Ástæða þess eru viðbrögð við viðskiptaþvingar landanna vegna stuðnings við Úkraínu.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ítrekað lýst yfir stuðningi íslenskra stjórnvalda við málstað Úkraínumanna því kom mörgum á óvart að Ísland væri ekki á bannlista Pútín.