Stjórnvöld hafa ekki myndað opinbera eigendastefnu ríkisins, það er hvaða tilgangi eignarhald ríkisins á Landsvirkjun þjónar. Þetta kom fram í máli Bryndísar Hlöðversdóttur, stjórnarformanns Landsvirkjunar, á ársfundi félagsins í dag.

Hún sagði að ríkið eigi ekki að beita sér sem eigandi í þeim tilgangi að auka atvinnusköpun á einstaka landsvæðum. Hún sagði að slíkar kröfur hafi verið settar fram á Alþingi og af aðilum vinnumarkaðarins. Mikilvægt sé að ákvarðanir um framkvæmdir séu teknar á viðskiptalegum forsendum. Bryndís tók þó fram að hingað til hafi samstarf verið gott og stjórnendur Landsvirkjunar verið sjálfstæðir. Þrátt fyrir það sé mikilvægt að mörkuð sé eigendastefna og benti m.a. á slíkar stefnu í Noregi og öðrum ríkjum.