Sérfræðingahópur um skuldavanda heimilanna skilaði niðurstöðum sínum í dag. Fram kemur að um 10.700 heimili eru í greiðsluvanda, eða 14,7% heimila með íbúðaskuldir. Um helmingur þeirra sem eru í greiðsluvanda skuldar meira en nemur verðmæti fasteignar. Engin ein leið megnar að koma öllum til bjargar, segir í skýrslunni.

Hópurinn skoðaði níu leiðir og bar saman. Í skýrslu sérfræðingahópsins er sagt að erfitt sé að meta leiðir 7,8 og 9.

Leiðirnar eru:

1.      Flata niðurfærslu skulda um 15,5%.

2.      Niðurfærslu skulda m.v. upphaflega lánsfjárhæð

3.      Niðurfærslu skulda að 110% af verðmæti fasteigna

4.      Niðurfærsla skulda að 110% af fasteignastöðu stiglækkandi

5.      Hækkun vaxtabóta

6.      Lækkun vaxta á fasteignalánum í 3%

7.      Tveggja þrepa nálgun (sölu-/kaupréttur)

8.      LÍN leiðin

9.      Eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi

Samkvæmt niðurstöðum hópsins er hækkun vaxtabóta ódýrasta leiðin en kostnaður við þá aðgerð yrðu 2 milljarðar króna á ári en 40 milljarðar króna ef hækkun yrði varanleg. Fækkun heimila í vanda við slíka aðgerð yrði um 20,5%.

Sú leið sem myndi leiða til mestrar fækkunar heimila í vanda er lækkun vaxta á fasteignalánum í 3%. Það myndi kosta 24 milljarða króna á ári en 240 milljarða ef vextirnir yrðu varanlegir. Fækkun heimila í greiðsluvanda yrði 36,3%.

Þá myndi sértök skuldaaðlögun fækka heimilum í vanda um 29,5%. Kostnaður er metin á 18-26 milljarða króna.

Dýrasta leiðin er flöt lækkun skulda um 15,5%. Kostnaður við þá leið er metin á 185 milljarða króna.