Íslensk stjórnvöld hafa ekki fengið neina formlega tilkynningu frá Rússum um að þeir  ætli ekki að lána Íslendingum, segir Elías Jón Guðjónsson, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins.

Erlendir miðlar fullyrða að Rússar hafi hafnað láni til Íslendinga.

Íslendingar hafa frá því í október á síðasta ári verið í viðræðum við Rússa um mögulega lánafyrirgreiðslu.

Í tilkynningu frá Seðlabankanum 7. október 2008 er reyndar fullyrt að slík lánafyrirgreiðsla sé þegar í höfn.

Í tilkynningunni segir að  sendiherra Rússlands á Íslandi, Victor I. Tatarintsev, hafi tilkynnt formanni bankastjórnar Seðlabankans, Davíð Oddssyni, fyrr um morguninn að Rússland myndi veita Íslandi lánafyrirgreiðslu að upphæð 4 milljarðar evra.

„Lánið mun verða til 3 - 4 ára á kjörum sem munu verða á bilinu 30 - 50 punktum yfir Libor-vöxtum. Putin forsætisráðherra Rússlands hefur staðfest þessa ákvörðun," sagði í tilkynningunni frá Seðlabankanum í október í fyrra.

Ef marka má erlenda miðla í dag verður hins vegar ekkert af því láni.

Ekki náðist í Jón Sigurðsson, formann íslensku samninganefndarinnar, við vinnslu þessarar fréttar.