Engin formleg tilboð hafa borist slitastjórn Byrs í nýja Byr. Eva B. Helgadóttir, formaður slitastjórnar Byrs, kannast ekki við að neinar viðræður séu í gangi, að því er fram kemur í frétt RÚV í dag.

Kemur fram að bankastjórar Íslandsbanka og Landsbankans hafa sýnt áhuga á að sameinast Byr. Eva fagnar áhuganum.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, lýsti áhuga á sameiningu í viðtali við Viðskiptablaðið í september sl. Þá sagði Steinþór:

„Ég tek sem dæmi að það væri eðlilegt að Landsbankinn og Byr myndu sameinast. Í því felast augljós tækifæri þar sem báðir bankarnir eru á hendi ríkisins.“

Hann sagði þó engar viðræður standa yfir. „En við höfum lýst yfir þessum vilja okkar, að við séum tilbúin að koma að borðinu.“ Ef Landsbankinn og Byr myndu sameinast yrði það báðum aðilum til góðs að mati Steinþórs og í því fælist veruleg hagræðing. „Við sameiningu væri hægt að fækka útibúum með því að loka þar sem báðir bankar eru með starfsemi, stundum yrði það útibú Landsbankans og stundum útibú Byrs. Með eðlilegri starfsmannaveltu sem alltaf er í stærri fyrirtækjum næðist hagræðing á 2-3 árum, án þess að það skapaðist þörf á því að segja fólki upp störfum í stórum stíl. Það væri því hægt að gera þetta með mildilegum hætti en jafnframt ná fram hagræðingu tiltölulega hratt.“