Nb.is-Netbankinn hefur ákveðið að bjóða einstaklingum nýtt debetkort án færslu- og árgjalda. Þá ber nýja kortið lægri yfirdráttarvexti og hærri innlánsvexti heldur en almennir tékka- og debetkortareikningar stóru bankanna. Eingöngu eru reiknaðir dagvextir af nýttri yfirdráttarheimild hverju sinni en ekki heimildargjald eins og tíðkast hjá öðrum bönkum. Hægt er að fá aukakort án kostnaðar ef hjón nota sameiginlegan reikning.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að í viðhorfskönnun Gallups fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið um bankamál í janúar á þessu ári kom í ljós að 20,2% viðskiptavina í bankakerfinu voru óánægðir með færslu- og þjónustugjöld og kostnað banka og sparisjóða. "Með nýju debetkorti hefur nb.is komið enn frekar til móts við viðskiptavini sína en þeir geta sparað þúsundir króna á ári með nýja kortinu. Nýtt debetkort nb.is er einkum hagkvæmur kostur fyrir þá sem nota debetkort mikið en eru með lága eða enga yfirdráttarheimild. Á vef nb.is er reiknivél þar sem viðskiptavinir geta reiknað út hve mikið þeir spara með því að fá debetkort án færslugjalda og með betri vaxtakjör. Einungis þarf að slá inn færslufjölda á mánuði og fjárhæð skuldastöðu eða inneignar. Viðskiptavinum með háa yfirdráttarheimild en fáar færslur býður nb.is Gulldebetkort með mun betri vaxtakjörum en hjá stóru bönkunum. Þannig leggur nb.is áherslu á að bjóða þá tegund reiknings sem hentar hverjum og einum miðað við notkun reiknings," segir í fréttatilkynningu Netbankans.

Þars egir ennfremur að viðskiptavinir þurfi ekki að vera með launareikningsviðskipti við nb.is til að fá debetkort án færslugjalda. Yfirdráttarheimild getur numið allt að 200 þúsund krónum án þess viðskiptavinur eigi launareikningsviðskipti við bankann eða leggi fram tryggingar en yfirdráttarheimild hærri en 200 þúsund krónur er háð því skilyrði að reikningurinn sé notaður sem launareikningur. Stefna nb.is er að krefjast ekki sjálfskuldarábyrgðar annarra sem tryggingu fyrir útlánum til viðskiptavina.

Nb.is er eingöngu rekinn fyrir einstaklinga á Netinu en með hagkvæmu rekstrarfyrirkomulagi getur hann boðið betri kjör, svo sem á innlánum og útlánum og nú debetkort án færslugjalda og árgjalda.