Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun af ákæru um tæplega þriggja milljarða króna fjárdrátt. Segir dómari málsins að ósannað sé að Hannes hafi gerst sekur um brotið en lýsir hann jafnframt furðu sinni á skorti gagna og upplýsinga úr Kaupþingi í Lúxemborg.

Í málinu var deilt um þriggja milljarða króna millifærslu af reikningi FL Group inn á reikning félagsins Fons sem er í eigu Pálma Haraldssonar. Í niðurstöðum dómsins kemur fram að sannað sé að Hannes hafi látið millifæra 46,5 milljónir Bandaríkjadala af bankareikningi FL Group í útibúi Danske Bank í New York inn á bankareikning FL Group hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Þessu hafi síðan verði skipt í tæpa þrjá milljarða íslenskra króna.

Hannes neitar því hins vegar að hafa millifært þessa fjármuni af reikningi FL Group og inn á reikning Fons. Í dómsniðurstöðunni kemur fram að engin gögn séu til frá Kaupþingi í Lúxemborg um millifærsluna, og að vitni sem starfað hafi fyrir bankann á þeim tíma hafi ekki getað upplýst um þetta. Þá bendi sum gögn frá bankanum til þess að engin millifærsla hafi átt sér stað og féð hafi allan tímann verið aðgengilegt FL Group.

„Allt sætir þetta nokkurri furðu og engar fullnægjandi skýringar hafa komið fram um þetta,“ segir í dómnum. Ákæruvaldið verði að bera hallann af þessum gagnaskorti auk þess sem enginn vitnisburður skýri hana. Því sé ósannað að Hannes hafi látið millifæra peningana inn á reikning Fons.