Gjaldskrá Strætó verður ekki hækkuð á mánudaginn eins og til stóð. Fargjöldin áttu að hækka um 7 prósent að meðaltali.

"Stjórn Srætó bs. hefur ákveðið að fresta fyrirhuguðum gjaldskrárbreytingum, sem áttu að koma til framkvæmda 1. desember," segir í tilkynningu frá Strætó bs. "Ákvörðun verður tekin um hvort af breytingunum verður þegar fjárlög liggja endanlega fyrir."

Samkvæmt samningi ríkisstjórnarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um eflingu almenningssamgangna var gert ráð fyrir 956 milljóna króna framlagi frá ríkinu á næsta ári.

"Fjárlagafrumvarpið gerir hins vegar aðeins ráð fyrir 822,6 milljónum króna í málaflokkinn. Stjórn Strætó bs. mun taka ákvörðun um hvort gjaldskrá fyrirtækisins verður breytt þegar fyrir liggur hvert framlag ríkisins verður í fjárlögum 2014, "segir í tilkynningu.