Engin hætta er á því að meint brot, sem framin voru í aðdraganda eða í kringum bankahrunið, muni fyrnast þótt rannsókn á þeim dragist eitthvað á langinn, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara. „Öll alvarlegri brot sem við erum að rannsaka fyrnast á tíu árum og fyrningarfrestur rofnar þegar rannsókn hefst,“ segir hann.

Öll helstu mál sem til rannsóknar eru hjá embættinu eru því í höfn hvað þetta varðar. Refsing fyrir einhver brot var þyngd með lögum og þar með lengdist fyrningarfrestur, en hann gerir það þó ekki ef hið meinta brot var framið fyrir lagabreytingu. Ólafur segir þó að það muni ekki hafa áhrif á meðferð mála hjá embættinu, enda hafi fyrningarfrestur verið rofinn fyrir nokkru.