Í dag var tilkynnt að Svafa Grönfeldt aðstoðarforstjóri Actavis verði frá og með fyrsta febrúar næstkomandi rektor Háskólans í Reykjavík en Guðfinna Bjarnadóttir núverandi rektor skólans tekur við þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn í vor.

Bjarni Ármannsson forstjóri Glitnis og formaður háskólaráðs Háskólans í Reykjavík tilkynnti starfsmönnum, nemendum og fjölmiðlum um ráðningu Svöfu og sagði við það tilefni að það væri ánægjulegt að skólinn hafi náð að finna til starfsins jafn hæfa manneskju og Svöfu.

Svafa sagðist vera spennt og ánægð yfir nýja starfinu þó að auðvitað væri það með eftirsjá sem hún hverfur frá störfum fyrir Actavis enda væri þar um að ræða eitt framsæknasta fyrirtæki landsins. Þá sagði hún að í raun hafi sú ákvörðun að gerast rektor Háskólans í Reykjavík bæði verið erfiðasta og auðveldasta ákvörðun sem hún hefði tekið. Svafa sagði jafnframt að ekki væri auðvelt að feta í spor Guðfinnu Bjarnadóttur sem hefði unnið frábært starf fyrir skólann undanfarin ár og byggt upp skólann frá grunni. "Það verður engin hallarbylting á fyrstu mánuðunum en að sjálfsögðu fylgja nýjar áherslur nýjum stjórnendum," sagði Svafa.

Svafa Grönfeldt er doktor í vinnumarkaðsfræði og stjórnun frá London School of Economics. Hún lauk meistaranámi í stjórnunar og boðskiptafræðum frá Florída Institute of Technology og er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands. Svafa hefur verið lektor við viðskipta-og hagfræðideild Háskóla Íslands í nær áratug og starfaði einnig um tíma sem lektor í viðskiptadeild HR. Svafa var framkvæmdastjóri og meðeigandi Gallup í níu ár en árið 2004 var hún ráðin framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Actavis og varð á síðasta ári aðstoðarforstjóri fyrirtækisins.