Í hádegisfréttum RÚV í dag var greint frá því að Fjármálaráðuneytið ætlaði sér upphaflega að hækka neðra þrep virðisaukaskatts upp í 11% en ekki 12%. Þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt í haust var sagt að matarskatturinn myndi hækka í 12% en í öllum prentuðum gögnum hafi hins vegar staðið að hann yrði hækkaður í 11%

Í tilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu segir hins vegar að engin handvömm hafi átt sér stað við vinnslu frumvarpsins. Þá hafi í fylgihefti frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015 verið tekið fram vegna áforma um skattkerfisbreytingar að við frágang á frumvarpi um tekjuráðstafanir hafi endanleg útfærsla þeirra breytinga að nokkru leyti orðið önnur en miðað var við á fyrri stigum við frágang tekjuáætlunar fjárlagafrumvarpsins. Þar er vísað til greinargerðar með frumvarpi um útfærslu á skattkerfisbreytingunum, þar sem fram kemur að hvaða marki þær eru á annan veg en gengið er út frá í umfjöllun í fjárlagafrumvarpi.

Þá sagði í frétt RÚV í hádeginu að samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2015 hafi hækkun skatts á matvæli í 11% átt að koma til framkvæmda árið 2016, sem er ekki rétt samkvæmt tilkynningu Fjármálaráðuneytisins. Í frumvarpinu kom fram að hækka ætti skattinn í tveimur þrepum, í 11% árið 2015 en í 14% árið 2016.

Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir aðra umræðu fjárlaga verður efra þrep virðisaukaskatts 24%, neðra þrep 11% og vörugjöld verða afnumin. Breytingarnar taka gildi 1. janúar 2015.