*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 29. nóvember 2020 18:02

Engin húrrahróp vegna ummæla

Óvíst er hvaða stefnu Íslandspóstur mun taka á næstunni. Fyrirhugað er að færa eftirlit með markaðnum til Byggðastofnunar.

Jóhann Óli Eiðsson
Eva Björk Ægisdóttir

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að stjórn Íslandspósts hafi ekki tekið því með húrrahrópum að fráfarandi forstjóri hafi í fréttaviðtali tekið undir efasemdir um tilvistargrundvöll félagsins. Enn hefur ekki fengist botn í umfang greiðslna til félagsins vegna veitingar alþjónustu en 250 milljóna króna framlag ríkisins kláraðist um mitt ár.

Það kom nokkuð á óvart þegar Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, tilkynnti í upphafi mánaðar að hann hygðist láta af starfi sínu hjá félaginu. Birgir tók við stjórnartaumunum sumarið 2019 en þá var fyrirtækið svo að kalla gjaldþrota. Um svipað leyti og fráfarandi forstjóri tók við sagði hann við Viðskiptablaðið að hann ætlaði ekki að láta tengja nafn sitt botnlausri hít. „Ég vil ekki tengja nafn mitt og orðspor við að biðja um meira bensín á tankinn til að halda áfram ferðalagi sem enginn veit hvert liggur,“ sagði Birgir meðal annars.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að fyrir stjórn hafi legið rekstraráætlanir sem fráfarandi forstjóra leist illa á. Þá hafi það heldur ekki verið til bóta að útlit sé fyrir að fyrirkomulag póstþjónustu verði hreint byggðamál en fyrirhugað er að færa eftirlit með póstmarkaði frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar á Sauðárkróki.

Frá því að Birgir tók við hefur verið gripið til nokkuð víðtækra hagræðingaraðgerða hjá Póstinum. EBITDA á fyrri hluta árs nam tæpum 89 milljónum króna en 64 milljóna króna kostnaður við endurskipulagningu hafði þar áhrif. Gjöld voru að auki 300 milljónum króna lægri en á sama tíma í fyrra. Aftur á móti var ekki gerð sérstök grein fyrir því að til tekna hefði verið fært 250 milljóna króna framlag ríkisins vegna alþjónustu og ljóst að staðan væri verri ef ekki hefði komið til þess. Þeir fjármunir kláruðust um mitt sumar og er nú unnið að því að fá botn í útfærslu alþjónustunnar, það er umfang hennar og hve mikið hún kemur til með að kosta.

Ný lög um póstþjónustu tóku gildi í byrjun árs sem afnámu einkarétt ríkisins til dreifingar bréfa. Við það eyddust skilin milli einkaréttar og alþjónustu, það er skyldu til dreifingar bréfa og böggla upp að 20 kílógrömmum um allt land. Við þinglega meðferð var frumvarpinu breytt þannig að sama verð skyldi vera fyrir alþjónustu á landinu öllu, eitt land, eitt verð.

Pósturinn brást við því með því að lækka verð vöruflokka alþjónustu á landsbyggðinni niður á verð höfuðborgarsvæðisins. Áður hefur verið fjallað um gjaldskrána í Viðskiptablaðinu í febrúar á þessu ári. Fráfarandi forstjóri sagði í viðtali við mbl.is að hann tæki undir gagnrýni á félagið vegna þessa en að ákvörðunin væri ekki félagsins heldur stjórnmálamanna. „Tilvera Íslandspósts er umdeilanleg,“ sagði Birgir meðal annars.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.