Þegar Bjarni Benediktsson var spurður út í ummæli sín nýverið um að rétt væri ef til vill að kjósa aftur í ljósi erfiðleika flokkanna um að setja saman ríkisstjórn sagði hann það enga „katastrófu“ að kjósa aftur

Kom þetta fram í Kastljósi RÚV , en þar sagðist hann hafa verið að bregðast við hugmyndum um þjóðstjórn sem komu frá Katrínu Jakobsdóttur formanni Vinstri grænna.

Ef ekki er hægt að raða saman kubbunum

„Það er engin katastrófa ef það er niðurstaðan. Ef það er niðurstaðan...að það hafi einhvern veginn komið þannig upp úr kjörkössunum að það er ekki hægt að raða saman kubbunum þannig að það sé traust til staðar og sameiginleg sýn á verkefnin, nú þá er ekkert að því mín vegna að það sé kosið aftur," sagði Bjarni, sitjandi fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Sagði hann það einungis vera lýðræðislegt, þó hann teldi það ekkert endilega það líklegasta í stöðunni í dag.

Lýsti hann tilraunum til stjórnarmyndunar sem völundarhúsi þar sem sífellt væri komið að ófærum leiðum og þótti honum verst hve flokkarnir hefðu verið iðnir við að setja skilyrði fyrir samstarfi.