Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir ekki hægt að vega fullkomlega upp áföll vegna útbreiðslu kórónaveirunnar Covid 19 frá Wuhan borg í Kína, á ferðaþjónustu og aðra geira efnahagslífsins með opinberum aðgerðum.

„Það verða óhjákvæmilega veruleg skammtímaáhrif, en það sem stjórnvöld, bæði peningaleg og hið opinbera, geta gert er að auðvelda leiðina út úr vandanum, og það er það sem verið er að reyna að gera hér eins og í löndum Evrópu," segir Jón Bjarki.

„Ákvörðun Bandaríkjastjórnar í morgun um ferðabann munu svo auðvitað hafa víðtæk áhrif hér eins og öllum vestrænum löndum og meira og minna út um alla heimsbyggðina. En þegar skellurinn er svona skyndilegur og af þessu tagi, þá verða áhrifin bæði mjög hröð og viðamiki. á þjónustu af öllu tagi. Bæði ferðaþjónustu og almenna þjónustu ýmis konar, enda verið að slaufa alls kyns fjöldasamkomum og mannamótum, og beint til fólks með tilmælum en mögulega á endanum hreinlega valdboði að hafa hægt um sig. Til viðbótar hefur þetta áhrif á virðiskeðjur og framleiðslukeðjur sem teygja sig á milli landa, svo maður tali nú ekki um væntingar og umsvif og það verður ekki hægt að vega þau áhrif upp með opinberum aðgerðum."

Fundurinn gott fyrsta skref, næstu taka tíma

Jón Bjarki tekur ekki alfarið undir þá gagnrýni sem heyrst hefur um að stjórnin hafi ekki verið nógu skýr í tillögum sínum um mótvægisaðgerðir fyrir efnahagslífið á fundinum á þriðjudag.

„Auðvitað markaðist sá fundur af því að það tekur tíma að útfæra aðgerðir hins opinbera, síðan þarf að fara með þær hina lýðræðislegu leið í gegnum þingið og svo framvegis, en það kom fram að fjárfestingaráætlun ríkisins verður kynnt fyrir mánaðarmótin, sem gæti orðið fyrsta skýra og veigamikla mótvægisaðgerð stjórnvalda," segir Jón Bjarki.

„Fundurinn sem fyrsta skrefið var þó töluvert betra en ekki neitt, að því gefnu að á næstu vikum komi trúverðug næstu skref, en auðvitað má heldur ekki rasa um ráð fram. Þó fátt væri um skýra drætti á fundinum var þó töluvert þung áhersla lögð á fyrirgreiðslu í skattamálum til lífvænlegra fyrirtækja sem eru að verða fyrir miklu skammtímahöggi, með hugmyndum um skattfrestun. En áframhaldandi samvinna stjórnvalda og fjármálakerfisins um fjármálalega fyrirgreiðslu til fyrirtækja og jafnvel breytingar á skattaumhverfinu sjálfu, þó þær tækju lengri tíma að koma í gegn, til dæmis lækkun á tryggingagjaldi, verður líklega á endanum nauðsynlegt. Aðrar aðgerðir eins og lækkun aðstoðugjaldsins sem er á færi sveitarfélaga og breytingar á tekjuskatti geta komið fyrirtækjum misvel, og áhrifin af því tilviljanakenndara, meðan mannmörg starfsemi eins og ferðaþjónustan fær mest út úr afnámi eða lækkun tryggignagjalds."

Í fordæmalausri aðstöðu til að bregðast við

Jón Bjarki telur líklegt að afnám gistináttaskjaldsins hafi verið nefnt sérstaklega á fundinum því væri eina sértæka skattheimtan á ferðaþjónustugeirann. Frekari aðgerðir hljóti að þó koma til greina eftir því sem skellurinn af áhrifum útbreiðslu veirunnar verður harðari.

„Það er engin katastrófa að fara að gerast á næstu dögum þó þessar aðgerðir stjórnvalda komi ekki fram strax. Væntanlega er verið að útfæra mögulegar aðgerðir þessa dagana í samráði Samtaka fjármálafyrirtækja og ríkisstjórnarinnar og þá hver yrði bein aðkoma ríkisins að þeim og hverjar verða á forræði fjármálafyrirtækjanna sjálfra," segir Jón Bjarki sem segir það hljóta að koma til álita að bankarnir verði við áskorun Seðlabankastjóra að greiða ekki út arð fyrir síðasta ár.

„Ég geri ráð fyrir að það verði skoðað af öllum bönkunum, enda auðvitað mikilvægt á svona stundum að þeir hafi sem mest fjárhagslegt svigrúm. Þetta eru að því leiti til fordæmalausar aðgerðir sem fara verður í nú, öfugt við fyrri skelli að nú er staða hins opinbera sterk, Seðlabankinn er með veglegan gjaldeyrisforða og ýmislegt annað sem við höfðum ekki eftir bankahrunið. Kúnstin nú er hvernig þessu svigrúmi verður beitt á sem skilvirkasta hátt."