Meirihluti íslenska uppsjávarflotans er við loðnuveiðar norður af Langanesi og er allur gangur á aflabrögðum. Albert Sveinsson skipstjóri á Víkingi AK, uppsjávarskipi Brims, segir loðnuna enn frekar dreifða og halda sig djúpt. Það hafi því skipt sköpum fyrir veiðarnar að veitt var heimild fyrir veiðum í flottroll.

Skipin hafa ekki verið í einum hnapp heldur skipst í megindráttur í tvo hópa. Víkingur AK var í sínum öðrum túr en landað var úr honum fyrsta loðnufarminum á þessari vertíð í Vopnafirði 6. desember sl., all sum 2.100 tonnum. Sama dag landaði Bjarni Ólafsson AK 1.600 tonnum sem hann fékk um 45 sjómílur norður af Melrakkasléttu. Var þetta fyrsti farmurinn sem barst Síldarvinnslunni á Neskaupstað á þessari vertíð. Þessar landanir gáfu vonir um að kraftur væri komast í veiðarnar. Loðan sem Bjarni Ólafsson landaði var misjöfn að stærð eftir holum, frá 36 og upp í 48 loðnur í kílóinu. Þorkell Pétursson skipstjóri sagði menn fulla bjartsýni hvað varðar vertíðina og að vonanadi fari loðnan brátt í hefðbundið göngumynstur.

Ágætar lóðningar

„Við erum núna um 58 mílur norður af Langanesi í fínasta veðri. Flotinn er hérna dálítið dreifður. Það fékkst lítið síðustu nótt og við höfum verið að vera leita í morgun. Akkúrat núna erum við að búa okkur núna undir að fara að kasta,” sagði Albert þegar náðist í hann í gærmorgun.

Víkingur kastaði á þriðjudagsmorgun og afraksturinn varð um 270 tonn. Til stóð að bæta úr stöðunni í gær og var Albert kominn í ágætar lóðningar. Allur gangur var á þessu hjá hinum uppsjávarskipunum á þriðjudag. Einhver þeirra voru að ná upp í 400 tonnum en önnur minna.

„Menn ganga ekki að þessu vísu. Þetta er síbreytilegt og svo var líka leiðindaveður á þriðjudag. Loðnan liggur djúpt og það er misjafnt standið á þessu. Hún er á fullri ferð og í mikilli átu og misjöfn þétting í torfur. Það á að gera skítabrælu á laugardag og mér sýnist að það verði ekki hægt að veiða í því veðri.”

Stutt í heimahöfn

Uppsjávarskip Brims eru betur í sveit sett en önnur uppsjávarskip því styttra er í heimahöfn fyrir þau frá loðnumiðunum þar sem veiðist núna eða um 95 sjómílur. Albert segir að það sé vissulega kominn ákveðinn gangur í loðnuveiðarnar. Viðbúið er að norsk loðnuskip geti hafið veiðar hvenær sem er og segir Albert ekki beint fýsilegt að hugsa til þess þegar allur sá skari mæti. Þá geti orðið þröng á þingi. Viðbúið er að norsku skipin fari ekki af stað fyrr en veiðar komast í fullan gang og loðnan er gengin inn á það svæði sem þeim er heimilt að veiða. Búast má við að töluvert af afla norsku skipanna verði landað til bræðslu í íslenskum höfnum ef að líkum lætur.

En hvernig búast þaulreyndir loðnuskipstjórar við að það gangi að ná þessum stóra kvóta sem úthlutað var til íslenskra skipa, nú þegar vel er liðið á desembermánuð:

„Við verðum bara reyna okkar besta. Framvindan í veiðunum veltur líka mikið á veðri. Við verðum að vera bjartsýnir á framhaldið, að það verði gott form á lóðningum og gott veður. Þetta þarf allt að spila saman. Við gerum hlé á veiðunum yfir jólin. Við stoppum þann 19. og verðum farnir aftur til veiða 3. janúar,“ segir Albert.