Ragnheiður H. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar, segist ekki finna fyrir miklum samdrætti í vefiðnaðinum núna. „Fólk er kannski að sjá það núna að vefurinn er mikilvægt markaðstæki og ekkert fyrirtæki fer af stað núna nema að vera með mjög góða og lifandi vefsíðu.“

Hugsmiðjan er stór aðili í hönnun og umsjón á opinberum vefjum. Skammt er síðan birt var úttekt yfir bestu opinberu vefina, en hún hefur nú verið framkvæmd fjórum sinnum. Alls voru skoðaðir 267 vefir ríkisstofnana, ráðuneyta og sveitarfélaga. „Við erum með mjög marga opinbera vefi, líklega um 50 til 60 prósent af opinberum vefjum. Við hönnum og forritum þessa vefi og svo erum við líka stundum að forrita hluti sem gerast bak við tjöldin.“

Ragnheiður segir engan grundvallarmun á því hvernig byggja á upp opinberan vef og fyrirtækjavef, en það fari vissulega eftir eðli þeirrar stofnunar sem í hlut á. „Við erum öllu hógværari í hönnun ef við erum að hanna vef fyrir ráðuneyti svo dæmi sé tekið, en þegar við tökum að okkur vef eins og hjá Orkusölunni, þar sem við fengum að leika okkur meira, getum við sleppt okkur lausum. Sá vefur var einmitt tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.