Svo virðist sem rannsókn Seðlabanka Íslands á máli Heiðars Más Guðjónssonar hafi ekki átt sér neina stoð í lögum, heldur hafi einungis farið fram á grundvelli vinnureglna í Seðlabankanum.

Þetta er staðfest í afstöðu ríkissaksóknara vegna kæru Seðlabankans á hendur Heiðari Má. Viðskiptablaðið hefur erindi saksóknara undir höndum.

Kærunni hafði upphaflega verið vísað til sérstaks saksóknara (sem tók við málinu þegar efnahagsbrotadeild RLS var lögð niður) sem mat málið sem svo að ekki væri tilefni til ákæru. Þeirri ákvörðun vísaði Seðlabankinn til ríkissaksóknara sem þann 10. maí sl. staðfesti ákvörðun sérstaks saksóknara.

Sérstakur saksóknari og ríkissaksóknari komust að sömu niðurstöðu, að Heiðar Már hefði ekki gerst brotlegur gegn lögum með því að flytja íslenskar krónur hingað til lands sumarið 2010 í gegnum eignarhaldsfélag sitt, Ursus. Og þar sem engin lög hefðu verið brotin væri því ekkert tilefni til refsingar. Því var málið látið niður falla.

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.