Stærsta verkalýðsfélag Ítalíu hvetur stjórnvöld þar í landi til að gera allt sem þau geta til að bjarga flugfélaginu Alitalia. Formaður félagsins segir það skyldu ráðherra að gera það sem þeir geta til að ná sáttum milli starfsmanna og mögulegra kaupenda félagsins.

Upp úr slíkum samningaviðræðum slitnaði á fimmtudaginn, en ekki náðist samkomulag um fækkun starfa hjá félaginu. Alitalia tapar nú meira en 2 milljónum evra á dag af rekstri sínum.

Skipaður stjórnandi félagsins undirbýr nú skipti á félaginu. Hann segist finna fyrir áhuga á að kaupa flutningadeild félagsins en enginn hafi hins vegar viljað leggja fram tilboð í allar eignir Alitalia ennþá.

Þjóðnýting er ekki leyfð innan Evrópusambandsins og erlendir aðilar hafa lítinn áhuga sýnt á kaupum á flugfélaginu.

Forsætisráðherrann Silvio Berlusconi sagði í sjónvarpsviðtali í vikunni að lítill áhugi sé á að kaupa Alitalia og að þrátt fyrir að hann vonist til að lausn finnist á málum félagsins þá telji hann að það stefni í gjaldþrot.

Alitalia hætti við nokkur flug frá flugvellinum í Róm í vikunni en orðrómur er uppi um að félagið hafi ekki efni á að kaupa bensín á vélar sínar. Félagið fór í greiðslustöðvun í síðasta mánuði. Air-France KLM hefur reynt að taka félagið yfir sem og hópur ítalskra fjárfesta, en starfsmenn Alitalia hafa komið í veg fyrir báðar yfirtökurnar, þar sem þær hefðu þýtt fækkun starfa.