Enn hefur ekki tekist að koma fram með ásættanlega áætlun til bjargar bílaiðnaðinum í Bandaríkjunum.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa svarað beiðni bílaframleiðandanna Ford, GM og Chrysler um aðstoð á þá leið að ekkert verði gert nema félögin komi sjálf með tillögu að raunhæfum aðgerðarpakka ef þau vilja aðstoð ríkisins. Hafa báðar þingdeildir Bandaríkjaþings sammælst um að gefa bílaframleiðendum frest til 2. desember til þess að koma með lausn á vandanum.

Bílaframleiðendurnir Ford, GM og Chrysler hafa biðlað til stjórnvalda um 25 milljarða bandaríkjadala aðstoð til bílaiðnaðarins. Ekki eru þó allir sammála um hvernig sú aðstoð eigi að fara fram.

Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu á heimasíðu sinni.

Bæði Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem og Harry Reed, forseti öldungadeildarinnar, hafa lagt áherslu á hve mikilvægt sé að bílaframleiðendurnir vinni saman að aðgerðum. Án þeirra samvinnu sé ríkið ekki tilbúið að koma  til móts við félögin í formi fjár.