Pálmi Haraldsson, eigandi fjárfestingarfélagsins Fons, sem er annar stærsti hluthafi í FL Group , segir að rekstrarkostnaður FL Group á seinasta ári hafi verið óréttlætanleg. Aðspurður um rúmlega 6 milljarða rekstrarkostnað FL Group á seinasta ári segir Pálmi: „Við þessum tölum er mjög einfalt svar: Þarna voru gerð mistök og þau verða ekki gerð aftur. Það er engin leið að réttlæta þennan rekstrarkostnað með neinum hætti,” segir hann.

Afkoma Fons góð á liðnu ári

Hagnaður fjárfestingarfélagsins Fons var í fyrra rúmir 7 milljarðar fyrir skatta og tæpir 5 milljarðar eftir skatta. Eigið fé Fons var um 40% í árslok og heildareignir um 100 milljarðar króna, þ.e. eigið féð var um 40 milljarðar króna.

„Árið 2006 var í raun miklu betra í rekstri Fons en miðað við stöðu markaða tel ég þessa niðurstöðu vel viðunandi fyrir árið 2007,” segir Pálmi. „Ég fór nokkuð aðra leið en margir á markaði og Fons seldi í mörgum eignum að stærstum hluta seinasta vor. Við höfum t.d. endalega sölutryggingu á Skeljungi, lítum á það sem selt og félagið fer úr bókum okkar 1. apríl nk.. Ég veit nákvæmlega hvað ég fæ út úr sölunni og það er tekið tillit til þess í uppgjöri félagsins. Þá seldum við 26% hlut  í Högum og 3,7% FL Group, þar sem við vorum fjórði stærsti hluthafi, ásamt því að losa um fleiri eignir, þar sem spákortin mín sögðu til fyrir um að stormur væri í vændum,” segir Pálmi.

„Ég spáði hins vegar fyrir um lægðarbotninn of snemma og fór t.d. inn í FL Group að nýju í byrjun desember, þó að fleiri skýringar liggi að vísu þar að baki. Ég tek skýrt fram að ég er mjög sáttur við þá fjárfestingu, hún er hugsuð til langs tíma og ég tel FL Group vera vænlegan kost. Rekstur Fons í heild var því mjög góður að lokaskeiði ársins og ég held að mörg félög myndu vera sátt við samsvarandi niðurstöðu.”

Í Viðskiptablaðinu í dag er rætt við Pálma um m.a. áherslur í rekstri Fons um þessar mundir og fréttaflutning fríblaðsins 24 stunda sem honum þykir hafa verið ósanngjarn og skaðlegur.