Niðurstöður bergmálsmælinga Hafrannsóknarstofnunnar á stærð loðnustofnsins núna í haust eru á þann veg að stofnunin ráðleggur að engar loðnuveiðar verði leyfðar á vertíðinni 2019/2020. Greint er frá þessu í frétt um mælingarnar á vef stofnunarinnar.

Þar með er þó ekki útséð með loðnuvertíðina í vetur því Hafró mun að vanda mæla veiðistofninn aftur í janúar/febrúar á næsta ári og endurskoða ráðgjöfina í ljósi þeirra mælinga.

Loðna fannst víða á rannsóknasvæðinu þar sem rannsóknarskipið Árni Friðriksson RE-200 og norska uppsjávarskipið Eros framkvæmdu mælingarnar.

„Ungloðna, sem myndar hrygningar- og veiðistofninn á vertíðinni 2020/2021, var vestast og sunnan til á svæðinu en eldri loðna var mest áberandi norðar á landgrunni Grænlands, austan við Scoresbysund. Lítið fannst af fullorðinni loðnu innan íslenskrar lögsögu og var útbreiðsla loðnunnar vestlæg, líkt og verið hefur undanfarin ár. Þó var minna um loðnu norðanvert á rannsóknasvæðinu en verið hefur undanfarin ár og ekkert fannst norðan við 71°30,“ segir m.a. í fréttinni og enn fremur:

„Heildarmagn loðnu mældist 795 þúsund tonn og þar af var metin stærð veiðistofns vertíðarinnar 2019/2020 einungis um 186 þúsund tonn. Töluvert var hins vegar um ungloðnu og mældust tæplega 83 milljarðar eða 608 þúsund tonn af ókynþroska loðnu en samkvæmt aflareglu þarf yfir 50 milljarða til að mælt verði með upphafsaflamarki fiskveiðiársins 2020/2021.  Gögn um niðurstöður ungloðnumælinganna verða lögð fyrir Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) sem mun veita ráð um upphafsaflamark vertíðarinnar 2020/2021 þann 29. nóvember.

Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar í mars 2020 með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats útreikninganna, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu. Í samræmi við ofangreinda aflareglu ráðleggur Hafrannsóknastofnun að ekki verði leyfðar loðnuveiðar á vertíðinni 2019/2020.“