Enn liggur ekki fyrir hvenær fyrsta endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda verður tekin fyrir á fundi stjórnar AGS. Henni hefur sem kunnugt er ítrekað verið frestað.

Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir að Steingrímur J. Sigfússon hafi á ársfundi AGS í Istanbúl í Tyrklandi „gert mjög skilmerkilega grein fyrir mikilvægi þess að þessi mál yrðu afgreidd án tillits til stöðunnar í viðskiptum einstakra ríkja", eins og hann orðar það í samtali við Viðskiptablaðið og vísar til Icesave-deilunnar.

Í Istanbúl hafi engin loforð af hálfu forsvarsmanna AGS verið gefin en „ég held þó að sá skilningur hafi komið fram að það væri forsenda til þess að þrýsta á um að fá þetta afgreitt í stjórninni og þá jafnvel án tillits til þess að lokaafgreiðsla Icesave-málsins liggi fyrir," segir Indriði og bætir við:  „Ég held að forsendan fyrir því sé einhver efnisleg niðurstaða stjórnvalda í þessum ríkjum um lausn á málinu."

Spurður nánar út í þetta svarar hann.  „Ég hygg að þegar þeir tala um stjórnvöld séu þeir að tala um framkvæmdavald og að endanleg afgreiðsla Alþingis komi seinna."

Sem kunnugt er fundaði Steingrímur meðal annars með Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Tyrklandi.

Enn samskipti milli aðila um lausn á Icesave

Indriði segir að á fundinum í Tyrklandi hafi menn verið sammála um að „endanleg afgreiðsla væri háð afstöðu stjórnar AGS en þar færu einstök ríki með atkvæðisrétt," eins og hann orðar það. Vísar hann þar til Breta og Hollendinga sem hafa sterka stöðu innan AGS.

„Hins vegar kom mjög glögglega fram hjá forystumönnum AGS að þeir skilja vel málstað Íslendinga. Það er alveg ljóst að þeim finnst ekki þægilegt að vera settir í þá stöðu að vera milli steins og sleggju."

Indriði segir að enn séu samskipti milli íslenskra, breskra og hollenskra embættismanna um lausn á Icesave-málinu.  „Það eru og hafa verið samskipti á milli aðila, fyrir, á meðan og eftir fundinn [í Istanbúl]."

Spurður hvort staða Íslendinga hafi í raun eitthvað breyst eftir fundinn svarar hann.  „Hún breyttist að því leyti að þeim er nú ljósara en áður afstaða okkar í þessum málum. Ég tel að það séu miklar líkur á því að það geti flýtt fyrir afgreiðslu málsins."

Sem kunnugt er, er önnur greiðsla láns AGS til Íslendinga háð fyrstu endurskoðuninni, sem og fyrsti hluti láns Norðurlandanna.