„Ég ætla ekki að segja neitt annað en að maður hefur auðvitað vonir um það“ sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra, að afloknum ríkisstjórnarfundi í dag, aðspurður um hvort búast mætti við eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum í dag.

Hann sagði að brýnasta verkefnið sem lægi fyrir hagstjórninni eins og er væri að koma reglu á gjaldeyrismarkaðinn og koma á eðlilegri gegnisskráningu.

„Það hefur þvælst fyrir mönnum að bara einn viðskiptabanki er á markaði en vonandi breytist það á næstu dögum.“ sagði Geir en hann sagðist búast við þvi að gengið verði frá skiptingu Glitnis í Nýja-Glitni í dag eða í kvöld.

Geir lýsti um leið yfir vonbrigðum með þær fregnir að borið hefði á því að útflytjendur hafi ekki flutt heim gjaldeyri fyrir afurðir sínar. Þörf væri fyrir gjaldeyrinn á Íslandi og hvatti hann þá til þess að breyta þessari hegðan sinni og koma honum inn á markaðinn.