Engin niðurstaða liggur fyrir í rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintum samkeppnislagabrotum Mjólkursamsölunnar gegn mjólkurbúinu Kú. Í desember vísaði áfrýjunarnefnd samkeppnismála málinu til Samkeppniseftirlitsins og eftirlitið hét því þá að hraða rannsókn sinni. Þessu greinir Kjarninn frá.

Eins og VB.is greindi frá hefur Félag atvinnurekenda sent Samkeppniseftirlitinu erindi vegna málsins og ítrekað fyrri áskorun sýna um að málinu verði hraðað eins og hægt er. FA sendi ítrekunina vegna ákvörðunar verðlagsnefndar búvara um hækkun á verði hrámjólkur til úrvinnslu. Mjólkurbúið Kú telur þá ákvörðun til þess fallna að ýta keppinauta MS af markaði og hyggst kæra ákvörðunina til Samkeppniseftirlitsins einnig.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir í samtali við Kjarnann að þetta sé langur tími. Hann segir FA hafa lagt fram tillögur um hvernig megi gera þetta samkeppnisréttarkerfi skilvirkara, sérstaklega fyrir lítil fyrirtæki sem eiga í höggi við stóra keppinauta með miklar bjargir, sem hafa efni á færum lögfræðingum og svo framvegis, þá sé mjög erfitt að bíða svona lengi eftir niðurstöðum í máli.

Forsaga málsins er að Samkeppniseftirlitið sektaði MS um 370 milljónir króna fyrir samkeppnisbrot gegn mjólkurbúinu Kú í september í fyrra. Þá hefði MS misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja samkeppnisaðilum Kú, sem eru tengdir MS, hrámjólk á 17 prósent lægra verði en því sem Kú bauðst.

Í desember komst áfrýjunarnefnd samkeppnismála að þeirri niðurstöðu að fella yrði úrskurðinn úr gildi, vegna þess að MS upplýsti ekki eftirlitið um samning á milli fyrirtækisins og Kaupfélags Skagfirðinga, sem á hlut í MS og er einn þeirra aðila sem fékk hrámjólk á lægra verði. MS lagði samninginn ekki fram fyrr en við málflutning fyrir áfrýjunarnefndinni.

Áfrýjunarnefndin vísaði málinu aftur til Samkeppniseftirlitsins. Hún tók enga efnislega afstöðu til málsins heldur taldi að ekki hefðu komið fram fullnægandi skýringar af hálfu MS á framkvæmd samningsins fyrir nefndinni. Samkeppniseftirlitið ætti því að rannsaka málið aftur, með hliðsjón af umræddum samningi.