*

mánudagur, 23. september 2019
Erlent 19. ágúst 2019 10:02

Engin niðursveifla í sjónmáli

Larry Kudlow, aðalráðgjafi Trumps í efnahagsmálum, segir horfur góðar þrátt fyrir hættumerki á skuldabréfamarkaði.

Ritstjórn
Larry Kudlow er aðalráðgjafi ríkisstjórnar Trumps á sviði efnahagsmála.

„Ég kem hvergi auga á merki um niðursveiflu,“ sagði Larry Kudlow, aðalráðgjafi ríkisstjórnar Trumps á sviði efnahagsmála, í fréttaþættinum Fox News Sunday og greint er frá á vef Financial Times. 

Vaxtarferill bandarískra ríkisskuldabréfa snerist á haus í síðustu viku þegar áxötunarkrafa á lengri enda ferilsins var lægri en vextir á skammtímalánum. Sögulega hefur öfugur ferill reynst fyrirboði samdráttar í hagkerfinu en síðast tók ferilinn á sig þessa mynd sumarið 2007. Það er því ekki að undra að fjárfestar hafi í stigið varlegar til jarðar í kjölfarið og rekja margir greinendur verðlækkun á hlutabréfamörkuðum vestra í síðustu viku til frétta af stöðu skuldabréfamarkaða. 

Kundlow sló hins vegar á þessar áhyggjur og tefldi fram jákvæðum tölum um vöxt einkaneyslu og lítið atvinnuleysi gegn svartsýnisröddum markaðarins. „Við erum að standa okkur andskoti vel að mínu mati,“ sagði Kudlow í öðru viðtali við sjónvarpsstöðina NBC og bætti við, „Við skulum ekki óttast bjartsýni.“ 

Þrátt fyrir að vera bjartsýn fyrir hönd efnahagslífsins sagði Kudlow að ríkisstjórn Trumps hafi í hyggju að ýta undir hagvöxt með skattalækkunum og örva hagkerfið með opinberum fjárfestingum.