Sérfræðingar Evrópusambandsins á sviði verndaraðgerða hittust á fundi í dag til að ræða hugsanlegar aðgerðir gegn innflutningi á eldislaxi. Samkvæmt heimildum frá viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins var fundi frestað um viku án þess að niðurstaða fengist.

Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaskrifstofunni er erfitt að átta sig á
afstöðu einstakra ríkja en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun hafa verið gagnrýnd á fundinum ekki síst fyrir að hafa ekki á reiðu upplýsingar um afstöðu og hagsmuni annarra ríkja en Noregs, þ.m.t. Íslands.

Samkvæmt heimildum viðskiptaskrifstofunnar mun framkvæmdastjórnin hafa fullyrt á fundinum að Norðmenn gætu unað þeim kvóta sem þeim yrði væntanlega úthlutað. Hins vegar lágu á fundinum ekki fyrir upplýsingar um
hvort önnur ríki gætu sætt sig við þá kvóta sem þeim yrði úthlutað og var
framkvæmdastjórnin ennfremur gagnrýnd fyrir það.

Þrátt fyrir þetta getur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gripið til tímabundinna aðgerða en efasemdir voru uppi um það hvort slíkar aðgerðir nytu stuðnings ráðherraráðs Evrópusambandsins sem leggja þarf blessun sína yfir ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Talið er að framkvæmdastjórnin muni fara varlega í að grípa til slíkra verndaraðgerða ef hún telji víst að aðgerðir hennar njóti ekki stuðnings meirihluta aðildarríkjanna.