Í málefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar er boðað að stjórnin mun endurskoða framkvæmdaáform opinberra aðila með það fyrir augum að beina framkvæmdum í verkefni sem eru þjóðhagslega arðbær og krefjast mikillar vinnuaflsþátttöku. Kynnt verður tímasett áætlun um opinberar framkvæmdir og útboð á árinu. Engin ný áform um álver verða á dagskrá ríkisstjórnarinnar.

Heimildir Íbúðalánasjóðs til lánveitinga vegna viðhaldsverkefna á íbúðarhúsnæði verða rýmkaðar og tekin verður upp full endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingastað við slík viðhaldsverkefni segir í málefnasamningnum.

Ráðist skal í sértæk átaksverkefni með öflugum vinnumarkaðsaðgerðum til að vinna gegn atvinnuleysi.

Leitað verður leiða til þess að örva fjárfestingu innlendra og erlendra aðila og sköpun nýrra starfa á almennum vinnumarkaði.