Kynningarátak sem ráðist var í erlendis og laða átti hingað til lands erlenda loðdýraræktendur skilaði engu þótt einhverjir séu að skoða slíka möguleika. Þetta segir Einar S. Einarsson, loðdýraráðunautur hjá Bændasamtökunum.

Fjárfestingarstofa Íslands í samstarfi við Samtök íslenskra loðdýrabænda og Bændasamtök Ísland, réðust í kynningarátakið fyrir tveimur árum.

Einar segir í samtali við Sunnlenska fréttablaðið sem kom út í dag, að talsvert hafi verið um fyrirspurnir um ný loðdýrabú. Engin séu hins vegar á teikniborðinu. Á sama tíma hafi eldri loðdýrabú verið að stækka. Í blaðinu er t.d. bent á að í Neðri-Dal í Rangárvallasýslu sé verið að stækka loðdýrabú þar um þriðjung. Þá kemur fram að stefna stjórnvalda miði uppbyggingu loðdýrabúa við tvö svæði, á Suðurlandi í kringum Selfoss og í Skagafirði.