Þó stefnt hafi verið að því undanfarna mánuði hjá Keili að hefja nám til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð, segir Arnbjörn Ólafsson, markaðsstjóri skólans nú ljóst að námið muni ekki hefjast næstkomandi haust. Segir hann skólann hafa unnið í samstarfi við CCP og aðra innlenda tölvuleikaframleiðendur auk erlendra skóla að þriggja ára námsbraut við skólann en menntamálaráðuneytið hafi ekki verið jafnáhugasamt.

„Skólinn hefur í samstarfi við CCP og aðra tölvuleikjaframleiðendur á Íslandi, ásamt Samtökum leikjaframleiðenda og alþjóðlegum skólum í tölvuleikjagerð, unnið að þriggja ára námi til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð,“ segir Arnbjörn í fréttatilkynningu.

Segir kerfið lengi að bregðast við

„Er þetta gert til að bregðast við bæði þörfum atvinnulífsins og óskum fyrirtækja um að eiga aðgang að vel menntuðu fólki til starfa innan greinarinnar, ásamt áhuga ungs fólks á að sækja sér þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist þeim í hönnun og framleiðslu tölvuleikja.

Bæði atvinnulífið og ungt fólk hafa lýst yfir áhuga á slíku námsframboði, en á sama tíma hefur menntamálaráðuneytið ekki verið jafn áhugasamt. Það er áhyggjuefni að í kerfi sem tekur jafn langan tíma að bregðast við - ef þeir bregðast við yfirhöfuð - eigum við raunverulega hættu á að ungt fólk í skólakerfinu sé ekki að fá þá færni og þekkingu sem fyrirtækin kalla eftir.

Atvinnulífið er í stöðugri framþróun og verður sífellt kvikara. Á meðan virðist kerfið ennþá vera svifaseint og lengi að bregðast við nýjum kröfum og þörfum atvinnulífsins. Á meðan Keilir er tilbúinn að hefja nýtt nám með breiða skírskotun í nýsköpun, tækni- og hugverkagreinar ásamt óskum ungs fólks, er kerfið staðnað. Á meðan tölvuleikjaframleiðendur segja já, segir því miður tölvan ennþá nei.“