Olíumálaráðherrar OPEC komu saman í fyrsta skipti í sex mánuði í Austurríki um helgina og sendu í kjölfarið frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kom að engin ástæða væri fyrir samtökin að auka olíuframleiðslu sína. Meðal annars var vísað til þess að varabirgðir af olíu í heiminum væru í "þokkalegu horfi".

Í lok síðasta árs samþykkti OPEC að draga úr olíuframleiðslu aðildarríkja samtakanna um 6% til að viðhalda olíuverði í kringum 60 Bandaríkjadali á fatið. Þær aðgerðir OPEC hafa vissulega spilað stórt hlutverk í hækkandi olíuverði á heimsmarkaði, en á undanförnum sex mánuðum hefur verðið hækkað um 25%.

Hins vegar lækkaði verð á Brent Norðursjávarolíu um einn Bandaríkjadal á markaði í London í gær og stóð verðið á einu fati í 74,08 dölum.