Það var aldrei ætlunin að ríkið héldi á hlut sínum í Íslandsbanka til lengri tíma,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í nýjasta hefti Þjóðmála sem kom út í dag . Sigurður sat í  framkvæmdahóp um losun fjármagnshafta árið 2015, og tók þátt í viðræðum við kröfuhafa Glitnis sem urðu til þess að ríkið eignaðist bankann. Nú hyggst ríkið selja 25-35% hlut í bankanum en verður því áfram meirihlutaeigandi í bankanum með 65-75% hlut.

„Þegar ríkið eignaðist þann hlut var það til að leysa ákveðin vandamál sem tengdust losun hafta. Það var engin stefna af hálfu ríkisins að eignast banka í viðskiptalegum tilgangi eða auka hlut sinn á fjármálamarkaði. Þvert á móti var lögð áhersla á að Glitnir ætti áfram hlutinn og kröfuhafar kæmu honum í verð. Gögn sem birtust í tengslum við kynningarfundinn 8. júní 2015 þegar áætlun um losun hafta var kynnt sýna þetta en svo breyttist staðan þegar leið á árið. Það var í raun engin óskastaða fyrir ríkið að eignast bankann, heldur var það sem fyrr segir hluti af því að losa höftin,“ segir Sigurður.

Þá hafi regluverk umgjörð fjármálamarkaðarins hafi gjörbreyst frá árinu 2008, bæði hér á landi og alþjóðlega. „Eftirlit er miklu meira en það var og sameining Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins hefur styrkt eftirlit til muna, það eru gerðar miklu meiri kröfur til stjórnenda og eigenda fjármálastofnana en áður var, bankar eru mun betur fjármagnaðir en áður og eiginfjárhlutfall þeirra er mun hærra. Þetta er gjörbreytt landslag,“ segir Sigurður.

„Ríkið þarf því ekki að vera eigandi eignarhlutar til að hafa áhrif á markaðinn, það gerir það bæði í gegnum regluverkið og eftirlit. Mér finnst það skipta miklu máli í þessari umræðu,“ bætir hann við.