„Nei, ég get ekki sagt að það sé nein pressa á því. Ég held að það sé fullur skilningur á því að þetta taki tíma,“ segir Ragnar H. Hall lögmaður aðspurður hvort engin pressa sé á úrskurðarnefnd vegna SpKef af hálfu ríkisins eða Landsbankans.

Úrskurðarnefndin var skipuð til að meta eignir SpKef vegna ágreinings á milli Landsbankans og ríkisins í málinu. Samkvæmt samningi milli Landsbankans og fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að ríkið borgi mismuninn á eignum SpKef og innstæðum með ríkisskuldabréfum.

Ríkið telur upphæðina vera 11,1 milljarð króna en Landsbankinn metur upphæðina á 30 milljarða.

Ragnar vildi lítið tjá sig um hvað það væri sem tefji úrskurðinn nema að verkið væri þannig að það tæki tíma að fara í gegnum það.