Evróputilskipunin um innstæðutryggingakerfi felur ekki í sér ríkisábyrgð viðkomandi ríkja, þótt í skýringum með frumvarpinu sé tekið fram að ekki þyki rétt að banna hana alfarið heldur. Það eigi þó að vera alger undantekning og háð ströngum skilyrðum, enda fælist í því verulegur samkeppnishalli.

Þetta kemur fram í fræðigrein, sem dr. Nevenko Misita við Lagastofnun Stokkhólmsháskóla ritaði um innstæðutryggingar út frá Evrópulöggjöfinni í Journal of International Banking Regulation árið 2003.

Dr. Misita bendir á að í skýringum með frumvarpi til Evrópustilskipunarinnar sé fjallað sérstaklega um hvort hið opinbera megi leggja til fjármuni ef innstæðutryggingasjóðir þrjóta. Þar er áskilið að um einstakt og ógnvænlegt neyðarástand sé að ræða og sagt að ekki sé við hæfi að slík ríkisaðstoð sé bönnuð í tilskipuninni, enda kunni hún að reynast nauðsynleg. Af samkeppnisástæðum eigi það hins vegar að vera alger undantekning en reglan sú að innstæðutryggingasjóðir séu fjármagnaðir með gjaldtöku af fjármálastofnunum „og ekki af almannavaldinu“. Að lokum varð það niðurstaðan að ein tilvísun tilskipunarinnar (nr. 24) kvað harla fast að orði um að hún geti ekki falið í sér fjárhagslega ábyrgð aðildarríkjanna.

Tvö sjónarmið

Í grein sinni nefnir dr. Misita að tvö meginsjónarmið séu uppi um hvort tilskipunin feli í sér skýlausan rétt til þess að sækja innstæðubætur ef banki fellur eða ekki reynast nægir fjármunir í tryggingasjóðnum. Sumir telji ljóst að engin ríkisábyrgð sé á innstæðum, svo fremur sem hið opinbera hefur komið á kerfi, sem viðurkennt er í skilningi tilskipunarinnar og nægilega fjármagnað til þess að geta þolað stöku bankafall. Af sama leiði að tryggingin taki ekki til kerfishruns. Aðrir segja aftur á móti að ábyrgðarleysi viðkomandi ríkja hvíli á því að innstæðutryggingakerfið veiti tilskilda lágmarksvernd og allan vafa beri að túlka hinum almenna innstæðueiganda í hag. Dr. Misita bendir á að ef seinni skilningurinn væri réttur hefðu mörg ríki ESB ekki innleitt tilskipunina með réttum hætti, enda hefðu þau mörg skorið á hvers kyns ríkisábyrgð.

Niðurstaða dr. Misita er að tilskipunin sé ófullkomin, enda sé hún að reyna að ná tveimur markmiðum, sem ekki fari endilega saman: stöðugleika á fjármálamarkaði og neytendavernd. Hún feli í sér freistnivanda fyrir innstæðueigendur en verði að vera í senn félagslega sanngjörn og efnahagslega skynsamleg.