Dagur B. Eggertsson borgarstjóri telur að borgarráð þurfi ekki samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til að hafa aðkomu að uppbyggingu leiguíbúða í Reykjavík. Samningaviðræður við fjárfesta eru á byrjunarstigi og vonir standa til að stöðumat á framkvæmdunum verði kynnt í haust

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrir mánuði er umdeilt hvort borgarráð þurfi undanþágu frá ríkisstyrkjareglum EES-samningsins til að byggja 2.500-3.000 leigu- og búsetaréttaríbúðir. Því hafi undanþágubeiðni verið send til ESA en ekkert svar borist.

Dagur segir að borgarráð hafi ekki sent eiginlega undanþágubeiðni til ESA vegna málsins heldur hafi verið um kynningu á verkefninu að ræða. „Við lítum ekki svo á að við séum að leggja út í neina ríkisaðstoð. Við vildum bara kynna þeim það sem við erum að gera til að hafa allt okkar á hreinu,“ segir Dagur.

Dagur segir erfitt að lofa því að íbúðirnar verði fullbyggðar á kjörtímabilinu. Stefnt sé þó að því að uppbyggingin verði komin vel af stað á næstu þremur til fimm árum. Spurður að því hvort nákvæm útfærsla verkefnisins liggi fyrir segir Dagur að svo sé ekki. Í því samhengi sé mikilvægt að borgarráð og ríkisstjórn séu samstíga, en skýrsla um framtíðarskipan húsnæðismála kom út nýverið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .