*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 1. október 2014 15:12

Engin rök fyrir flutningi Fiskistofu

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skorar á sjávarútvegsráðherra að draga til baka ákvörðun sína um flutning Fiskistofu.

Ritstjórn
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem nú stendur yfir var samþykkt að skora á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að draga til baka ákvörðun sína um að flytja Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Segir bæjarstjórnin engin málefnaleg rök fyrir flutningunum hafa komið fram.

Segir bæjarstjórnin jafnframt að þau byggðarsjónarmið sem vísað hafi verið til af hálfu ráðherra standist ekki skoðun samkvæmt upplýsingum sem bæjaryfirvöld hafi aflað sér. Samkvæmt tölulegum upplýsingum sé Akureyri ekki í vörn hvað íbúafjölgun varði og aðrar tölulega upplýsingar gefi ekki sérstaklega til kynna að bæjarfélagið þurfi sérstakan stuðning ríkisins í þessum efnum.

Bendir bæjarstjórnin þannig á að atvinnuleysi árið 2013 hafi verið 4,7% í Hafnarfirði samanborið við 3,5% á Akureyri og atvinnulausir í Hafnarfirði sem séu með háskólapróf hafi verið 118 en 62 á Akureyri í ágúst 2014. Segir einnig að verði af flutningi Fiskistofu til Akureyrar muni stöðugildum fækka um 57,5 í bænum til viðbótar við þau 126,8 störf sem fækkaði milli áranna 2007 og 2013.