Nýtt hverfi rís nú innst við Elliðaárvog og hefur hverfið fengið nafnið Vogabyggð. Fasteignasalan Trausti er meðal þeirra fasteignasala sem er með eignir í hverfinu til sölu og hefur sala þeirra farið vel af stað að sögn Kristjáns Baldurssonar, eiganda fasteignasölunnar. „Við erum að selja eignir í götu sem heitir Trilluvogur og íbúðirnar þar hafa selst hratt. Við vorum með 46 eignir til sölu í Trilluvogi og á þeim tíu dögum sem þær hafa verið í sölu hafa 20 eignir selst. Það telst nú bara ansi gott og það gefur ekki til kynna að það séu einhver rólegheit á fasteignamarkaði, en maður hefur lesið það víða undanfarið að fasteignamarkaðurinn sé að kólna."

Eins og Kristján kemur inn á að ofan þá hefur umræðan í þjóðfélaginu verið á þá leið að fasteignamarkaðurinn sé að kólna. Bent hefur verið á að ekki sé verið að sinna þörfum markaðarins - og meðal annars virðist vera mikið af óseldum eignum í miðbænum. Kristján telur að fasteignamarkaðurinn sé í góðu jafnvægi.

„Salan hjá okkur hefur gengið mjög vel í þessum venjulegu eignum og sömuleiðis hafa þessi verkefni þar sem við erum að selja nýjar íbúðir einnig gengið mjög vel. Við höfum til dæmis tekið þátt í mjög vel heppnuðum verkefnum í Jaðarleiti og Boðaþingi. Miðbærinn er orðinn mjög þéttur og ég tel að það séu miklir möguleikar í nærumhverfi miðbæjarins, eins og til dæmis í Vogabyggð. Mér skilst að það gangi nokkuð erfiðlega að selja stærri eignir í miðbænum. Umræða í fjölmiðlum um meinta laka sölu í miðbænum hefur svolítið litað umræðuna um stöðu fasteignamarkaðarins almennt, en víða eru í gangi verkefni sem ganga ljómandi vel."

Jákvætt að stjórnvöld sýni lit

Fyrr í þessum mánuði náðu aðilar vinnumarkaðarins loks samkomulagi um nýja kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum. Meðal efnis samningsins eru vissar stuðningsaðgerðir sem stjórnvöld ætla að ráðast í á húsnæðismarkaði. Nokkur óvissa ríkir þó enn um endanlegar útfærslur þessara aðgerða stjórnvalda. Kristján telur að aðkoma stjórnvalda í kjarasamningunum varðandi húsnæðismarkaðinn hafi góð áhrif, þar sem það sé jákvætt fyrir markaðinn að stjórnvöld sýni smá lit og komi með eitthvað inn á markaðinn sem geti komið fólki til góða.

„Jafnvel þó að það eigi eftir að koma betur í ljós hvernig þetta verður útfært og hvað þetta nákvæmlega verður, þá fundum við fyrir því eftir að gengið var frá kjarasamningum að það létti yfir öllum markaðnum. Á meðan óvissuástand stóð yfir vegna kjarasamninganna þá fundum við fyrir því að fólk hélt frekar að sér höndum en um leið og kjarasamningar náðust þá lifnaði aftur yfir markaðnum."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Átök um eignarhald á gagnaveri í Reykjanesbæ.
  • Isavia vildi ekki verða þess valdandi að Wow air færi í þrot.
  • Tæknirisar slíðra sveðrin.
  • Ítarlegt viðtal við Eyþór Arnalds, borgarfulltrúa og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
  • Ávöxtun lífeyrissjóðanna hrundi undir lok síðasta árs.
  • Rætt er við sérfræðing hjá Advania um rafrænar kosningar.
  • Nýr framkvæmdastjóri Logos lögmannsstofu er tekinn tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað ásamt Tý sem fjallar um upprisu Salek.