Úrvalsvísitala kauphallar Nasdac Iceland hefur lækkað um 1,82% í morgun. Markaðurinn lokaði á mikilli lækkun síðasta föstudag eftir að ársfjórðungsuppgjör fyrirtækja á borð við Icelandair - sem tapaði 2 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi - olli því að gengi hlutabréfa fyrirtækisins lækkaði um 7,46%.

Engin skráð félög hækkuðu í morgun. Mikil viðskipti eru með bréf Icelandair við opnun og nema þau 527 milljónum króna. Bréf félagsins lækka um 1,81% og er verð á hvern hlut nú 35,35 krónur. Mikil viðskipti voru jafnframt með bréf Össurar og námu þau 1.056 milljónum þegar fréttin er skrifuð. Hlutabréf félagsins standa þó enn sem komið er í stað.

Bréf tryggingarfélaganna TM og VÍS lækka nokkuð eða um 3,04% og 2,86%, en þó í rúmlega 130 milljóna króna viðskiptum enn sem komið er. Þá hafa viðskipti með bréf Marel numið 102 milljónum í morgun og lækka um 2,73%. Verð á hvern hlut er 249 krónur þegar þessi frétt er skrifuð.