Slitastjórn Glitnis vinnur að sölu á 95% hlut sínum í Íslandsbanka. Greint var frá því í DV í morgun að hópur alþjóðlegra fjárfesta frá Mið-Austurlöndum hefði skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á bankanum í síðustu viku. Segir þar að gangi kaupin í gegn muni fjárfestarnir reiða fram um 150 milljarða króna fyrir hlutinn.

„Eins og staðan er núna höfum við engin skuldbindandi tilboð eða annað slíkt í hendi, og við getum ekki tjáð okkur um það á hvaða stigi viðræðurnar eru gagnvart einstökum aðilum. Við gerum það ekki núna frekar en á undanförnum árum þegar við höfum unnið við þessar sölutilraunir,“ segir Steinunn í samtali við Viðskiptablaðið.

Aðspurð hvort hún geti staðfest að fjárfestarnir hafi skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á bankanum segist Steinunn ekki vilja tjá sig um það.