Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir atvinnurekendur ekki krefjast lögbanns á verkföll. Hann segir deilurnar eigi að leysa við samningaborðið. Hins vegar sé engin skynsemi á bak við kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV .

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að ef hækkanir verði langt umfram svigrúm muni verðbólga aukast og störfum fækka. Hann segir enga skynsemi á bak við þær kröfur sem settar séu fram og að verkalýðsforystan geti ekki firrt sig ábyrgð í því.

Undanfarin ár hefur kaupmáttur lægstu launa aukist umfram það sem eigi við um meðaltekjur. Þorsteinn segir að þannig sjáum við ekki hvert forysta verkalýðshreyfingarinnar ætlar með sinni kröfugerð en það virðist vera skýr krafa um aukna verðbólgu.

Þorsteinn segir að staðan í kjaraviðræðum sé mjög erfið og enn sé ekki lausn í vændum. Atvinnurekendur hafi þó ekki farið fram á lögbann verði sett á verkföll. Hann segir atvinnurekendur ætlast til þess og treysta á að samningar geti náðst við samningaborðið, það er þar sem eigi að leysa svona deilur og að því vinni þeir.