Fyrsta endurskoðun stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun AGS og Íslands hefur ekki verið dagsett endanlega.

Á vef AGS segir að stjórn sjóðsins muni taka endurskoðunina fyrir 14. september en það er einungis bráðabirgðadagskrá, segir Ragnar Hjálmarsson, skrifstofustjóri AGS, á Íslandi.

„Yfirstjórn sjóðsins er að fara yfir gögn og klára nauðsynlegan undirbúning sem þarf áður en málið er tekið fyrir í framkvæmdastjórn," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

„Vonast er til þess að endurskoðunin fari fram bráðlega og þegar dagsetning liggur fyrir munum við tilkynna það," segir hann enn fremur.

Upphaflega stóð til að endurskoðunin færi fram í febrúar en það hefur dregist á langinn. Málið var sett á dagskrá stjórnar sjóðsins í byrjun ágúst en var síðan frestað á síðustu stundu.

Mistök að setja málið á dagskrá

Í morgun var búið að setja málið aftur á dagskrá 14. september en þær skýringar berast nú innan úr AGS að um mistök hafi verið að ræða. Engin endanleg dagsetning liggi fyrir.

Önnur greiðsla láns AGS til Íslendinga er háð fyrstu endurskoðuninni. Sömuleiðis fyrsti hluti láns Norðurlandanna.