Lítil ef nokkur tengsl eru á milli launa forstjóra fyrirtækja sem skráð eru á hlutabréfamarkað og gengis þeirra og árangurs, samkvæmt niðurstöðum nýlegrar könnunar norska trygginga- og lífeyrissjóðsins Kommunal Landspensjonskasse Gjensidig Forsikringsselsap (stytt: KLP). KLP er með umsvifamestu fjárfestum Noregs. Fjallað er um könnunina í Aftenposten .

Í könnun KLP voru skoðuðu laun forstjóra og gengi 25 fyrirtækja sem skráð eru í kauphöllina í Ósló síðastlðin 14 ár. JEanett Bergan, forstöðumaður hjá KLP, segir í samtali við Aftenposten að svo virðist sem engin tengsl hafi verið á milli árangurs og launa.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru eftirfarandi:

  • Eftir því sem hlunnindi eru meiri þeim mun hærri eru laun forstjórans
  • Laun lækka eftir því sem áhættan eykst
  • Launin eru lægri hjá fyrirtækjum með hátt hlutfall skulda
  • Ef sami forstjóri situr lengi þá getur hann átt von á því að launin verði lægri en ella.

Bergan segir í samtali við blaðið ekki ánægð með niðurstöðurnar. Þær séu engu að síður í takti við það sem forsvarsmenn KLP hafi talið en laun forstjóra skráðra fyrirtækja í Noregi hafa ekki lækkað í fjármálakreppunni. Þvert á móti hafi þau aldrei verið hærri þótt afkoma fyrirtækjanna hafi dregist saman og gengi þeirra á hlutabréfamarkaði hafi lækkað mikið.