Að sögn Ásgeirs Friðgeirssonar, stjórnarmanns hjá enska knattspyrnufélagin West Ham United, hafa engin formleg tilboð komið í félagið eins og hefur verið haldið fram í breskum fjölmiðlum.

Aðspurður sagði Ásgeir að engin ákvörðun hefði verið tekin um að selja félagið og núverandi eigendur eru enn að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni.

Eignarhlutur Björgólfs Guðmundssonar, stjórnarformanns West ham, er vistaður í félaginu Hansa ehf. sem er nú í greiðslustöðvun.

Að sögn Ásgeir var óskað eftir greiðslustöðvun til að gæta jafnt hags allra kröfuhafa. Greiðslustöðvunin rennur út 8. desember næstkomandi og er gert ráð fyrir að ósk um framlengingu hennar verði lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Björgólfur keypti West Ham fyrir 85 milljónir punda fyrir tæplega þremur árum og tók yfir skuldir upp á 22,5 milljón punda.

Félagið leikur nú undir stjórn knattspyrnustjórans Gianfranco Zola og er í neðri hluta deildarinna. Það mætir stórliði Liverpool á Anfield í kvöld.