Engin tilboð bárust í flugfélagið Air India, sem er í eigu Indverska ríkisins. Ríkisstjórn Indlands hafði hugsað söluna á flugfélaginu sem eitt af sínum forgangsverkefnum og átti salan að leggja grunn að frekari einkavæðingu á öðrum fyrirtækjum í eigu ríkisins. Þetta kemur fram á vef CNN .

Opið var fyrir kauptilboð þar til í gær og eins og áður segir bárust engin kauptilboð. Talið er að gífurlegar skuldir félagsins hafi fælt kaupendur frá því að gera tilboð, en skuldir félagsins nema rúmum 7 milljörðum dollara.

Flugmálaráðuneyti Indlands sendi frá sér tilkynningu þar sem þessar fréttir voru staðfestar og kom það fram í tilkynningunni að næstu skref yrðu ákveðin fljótlega. Forsvarsmenn Air India vildu ekki tjá sig um þetta málefni.

Ríkisstjórn Indlands setti flugfélagið á sölu á síðasta ári og bauð kaupendum tækifæri til að kaupa samtals 76% hlut í fyrirtækinu. Með þessu vildi ríkisstjórnin koma í veg fyrir að skattpeningar borgaranna færu í að halda uppi flugfélagi sem hefur skilað tapi í áraraðir.